Cincinnatus

Ég var að lesa færslu Stefáns Pálssonar um "frönsku leiðina" og athugasemdirnar við hana um þverpólitíska og ópólitíska fólkið sem á að bjarga málunum. Allt er þetta kunnuglegt.

Ég held að það sé dálítil Cincinnatusar-hugsun í þessu með að fá menn í stjórnmál sem eru ekki stjórnmálamenn til að leysa pólitísk vandamál á ópólitískan hátt. Að fá fólk sem sækist ekki eftir pólitískum frama heldur lætur þrábeðið til leiðast á ögurstundu að bjarga þjóð sinni úr vandanum.

Og menn geta auðvitað alveg fengið sinn Cincinnatus. Eins og sá upphaflegi verður hann eflaust íhaldsfauskur sem ber niður uppreisn plebbanna og tryggir að allt verði eins og það var áður. Og fer síðan aftur að rækta akurinn sinn, ópólitískur sem fyrr.

Ludendorff

Ég er að hugsa um að mæta á morgun á Austurvöll og krefjast þess að ríkisstjórnin sitji áfram. Okkar íslensku Ludendorffar geta sjálfir skrifað undir sína nauðungarsamninga.

Jón Páll

Um helgina horfði ég á heimildamyndina um Jón Pál. Mér fannst hún fróðleg. Ég var bara strákur þegar Jón Páll dó. Hann var hetjan mín eins og sjálfsagt allra jafnaldra minna. Núna finnst mér merkilegt að sjá hvað hann hafði greindarlega og vinalega framkomu þegar hann var ekki að hamast.

Í dag var ég svo að tala við þýskan vinnufélaga minn. Hann hefur búið hérna í hálft ár og er langt kominn með að læra íslensku. En hann hafði aldrei heyrt um Jón Pál. Ég varð dálítið hugsi yfir því. Þegar ég ólst upp var Jón Páll einhvern veginn svo stór hluti af því hvað Ísland var. Núna er hægt að hafa svo mikinn áhuga á Íslandi að maður vilji flytjast þangað án þess að hafa nokkra hugmynd um sterkasta mann í heimi.

Metall

Sverrir: Hvaða tónlist hlustar þú svo á, Haukur?

Ég: Þungarokk.

Sverrir: Mér finnst það nú eiginlega ekki vera tónlist.

Og þar hef ég það, menningarlega veginn og léttvægur fundinn af litla bróður mínum. Er þungarokk kannski rangt orð? Ég veit aldrei hvaða orð á að nota um tónlistarstefnur sem heita hitt-og-þetta metal á ensku. Hvað er t.d. "symphonic power metal" á íslensku? Eða "melodic black metal"?

Annars hlusta ég mest á hollenskar hljómsveitir (Epica, After Forever, Within Temptation) en næstmest á norskar (Leaves' Eyes, Dimmu Borgir). Svo verður auðvitað að nefna Finnland líka - Nightwish er frábær, ég er samt ekki enn búinn að gera upp hug minn með nýju söngkonuna. Nenni þó varla að vera fúli aðdáandinn sem hlustar bara á gamla stöffið.

Nafnakerfi

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 25. október.

Magnús S. Magnússon skrifaði grein um íslenska mannanafnahefð í Morgunblaðið 21. október síðastliðinn. Þar segir hann að á Íslandi séu notuð tvö nafnakerfi, ættarnöfn og föður(móður)nöfn. Heldur Magnús því fram að ættarnafnakerfið sé notað af nánast öllu mannkyni, “yfir 99%”, og telur að það hafi kosti umfram föðurnafnakerfið. Niðurstaða hans er að ótæk mismunun sé að lög leyfi ekki hverjum Íslendingi sem vill að bera ættarnafn.

Lítum nú aðeins nánar á þetta. Er föðurnafnakerfið íslensk afdalamennska sem varla finnst annars staðar á byggðu bóli? Nota yfir 99% af mannkyni ættarnöfn? Ég hygg að þetta sé fullmikið sagt. Föðurnöfn eru notuð nokkuð víða. Til dæmis bera Rússar og Grikkir föðurnöfn auk ættarnafna. Þannig heitir forseti Rússlands fullu nafni Vladímír Vladímírovitsj Pútín, hann er sem sagt Vladímírsson. Konan hans heitir Ljúdmíla Aleksandrovna Pútína og er þar með Alexandersdóttir. Á svipaðan hátt var Konstantinos Georgiou Karamanlis, Grikklandsforseti, sonur manns sem hét Georgios. Svipaðir siðir tíðkast til dæmis í Kasakstan og Aserbaídsjan.

Nú má hins vegar benda á að í þessum löndum eru ættarnöfn notuð ásamt föðurnöfnunum og reyndar skipta ættarnöfnin þar iðulega meira máli. Spyrja má hvort einhvers staðar séu þjóðir sem nota föðurnöfn en ekki ættarnöfn. Þess eru reyndar ýmis dæmi. Nefna má Saddam heitinn Hussein, Íraksforseta, en við gætum kallað hann Saddam Husseinsson því að Hussein er föðurnafn en ekki ættarnafn. Arabísk nafnahefð er reyndar margslungin og er ekki rými til að rekja hana hér en föðurnöfn hafa þar ennþá sterka stöðu þótt ættarnöfn hafi nokkuð sótt á í seinni tíð.

Færum okkur nú til Indónesíu, fjórða fjölmennasta ríkis í heimi. Fyrir nokkrum árum hét forsetinn þar Megawati Sukarnoputri en seinna nafnið merkir Sukarnodóttir. Faðir hennar, Sukarno, var fyrsti forseti landsins. Eins og algengt er í Indónesíu hafði hann hvorki ættarnafn né föðurnafn og sama gilti um eftirmann hans, Suharto. Svipað er uppi á teningnum í Kambódíu og Búrma, til dæmis hefur Aung San Suu Kyi ekkert ættarnafn. Margir Indverjar og Pakistanar eru einnig ættarnafnalausir en bera þá iðulega föðurnöfn. Við gætum líka gripið niður í Afríku. Í Eþíópíu, Erítreu og Sómalíu eru föðurnöfn iðulega notuð fremur en ættarnöfn. Til dæmis hefur Isaias Afawerki, Erítreuforseti, ekkert ættarnafn en Afawerki er föðurnafn.

Af þessari stuttu yfirreið er strax ljóst að ekki er hægt að tala um ættarnafnakerfið sem nafnakerfi yfir 99% mannkyns. Nafnahefðir mismunandi þjóða eru mjög mismunandi og reyndar þannig að varla er hægt að tala um eitt ættarnafnakerfi því að ættarnöfn eru notuð og meðhöndluð mjög misjafnlega, jafnvel í löndum þar sem þau standa á gömlum merg. Til dæmis bera Spánverjar iðulega tvö ættarnöfn en Englendingar eitt. Báðir hafa síðan aðra hefð en Kínverjar sem setja ættarnafnið fremst en eiginnafnið aftast (sbr. Mao Zedong – Mao er ættarnafn).

Víkjum nú að því sem Magnús telur kosti ættarnafnakerfisins. Hann segir að ættir sem “mega hafa nafn” (þ.e.a.s. ættarnafn) séu “augljóslega í betri aðstöðu” en aðrar því að hinum sé “lögskipað í felur”. Nefnir hann Blöndalsætt sem dæmi um ætt í þessari góðu aðstöðu. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki alveg hvað Magnús er að fara. Á Íslandi eru fjölmargar þekktar ættir sem ekki tengjast neinu ættarnafni. Er Engeyjarætt í felum? Auk þess dugar Blöndalsnafnið ekki til að skera úr um hvort einhver sé af Blöndalsætt því að ættarnöfnin erfast venjulega bara í karllegg. Ekki verður heldur séð að föðurnafnakerfið hafi staðið Íslendingum fyrir þrifum þegar kemur að ættfræði og ættarmótum enda er hvort tveggja stundað ótæpilega hér á landi.

Magnús telur að misrétti felist í því að þeir einir eigi kost á að bera ættarnafn sem eiga til þess ætterni eða hjónaband. Sjálfsagt er það rétt í einhverjum skilningi en misrétti er innbyggt í næstum hvaða nafnakerfi sem er. Til dæmis er Pawel Bartoszek, sem Magnús telur vel settan að eiga sér ættarnafn, ekkert nær því en við Magnús að mega heita Eldjárn eða Laxness – til þess þyrftum við allir að finna okkur nýtt kvonfang.

Eina kerfið sem ekki fæli í sér neitt misrétti væri að leyfa hverjum sem er að velja sér hvaða fornöfn og eftirnöfn sem er. Slíkt kerfi hefði vitanlega sína ókosti og hér verður ekki skorið úr um hvort það væri betra eða verra en það sem við búum við núna. Þetta er samt væntanlega ekki kerfið sem Magnús hefur í huga því að hann lítur á ættarnöfn eins og einhvers konar lögvernduð “vörumerki”. Hvernig hann ætlar að útrýma öllu misrétti úr kerfinu er því ekki ljóst.

Vofa gengur ljósum logum í Stjórnarráðinu

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar að tryggja jafnvægi í efnahagslífinu og boðaði einnig endurreisn almannatrygginga í landinu. "Grundvöllurinn er að við greiðum eftir getu og þiggjum eftir þörfum." (Af forsíðu Morgunblaðsins í dag, leturbreyting mín.)

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg jafnóánægður með þessa ríkisstjórn og ég átti von á. Til dæmis finnst mér skemmtilegt að heyra Ingibjörgu Sólrúnu segja að grundvöllurinn í stefnu stjórnarinnar sé gamalt og gott marxískt slagorð.

Ýmislegt

Dyggir lesendur muna kannski eftir þessari færslu frá síðasta vetri þar sem ég talaði um að aka á eigin bíl í vinnuna og þóttist mikill maður. Ekki varði þetta tímabil nú lengi en með vorinu fór disin að venja komur sínar upp í Hádegismóa á daginn og gerði tilkall til þessa ökutækis. Ég tók hins vegar að hjóla í vinnuna. Nú fyrir nokkrum vikum sprakk á hjólinu mínu og hef ég ekki enn tuskast til að bæta dekkið. Í staðinn hef ég notið þjónustu strætisvagna borgarinnar í boði Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands.

Vagnarnir sem ég tek eru nú ekki nema rúmar fimm mínútur að skila mér vestur í bæ en samt reyni ég stundum að líta í bók á leiðinni. Yfirleitt er mér ekkert sérstaklega um að fólk sé að velta fyrir sér hvaða bækur ég er að lesa—svona getur maður verið óöruggur í eigin skinni—svo að venjulega sný ég kilinum heldur frá samferðamönnum mínum. Í síðustu viku varð ég var við að kona sem sat nálægt mér í vagninum tók að veita bókinni minni athygli. Ég lét sem ekkert væri. Hún fór heldur að ókyrrast. Á endanum manaði hún sig upp í að gefa sig á tal við mig. "Fyrirgefðu", sagði hún, "má ég nokkuð sjá kápuna á þessari bók sem þú ert að lesa?" "Jájá", svaraði ég og lyfti bókinni, sjálfsagt heldur sauðslegur á svipinn. "Hvar keyptirðu hana?" spurði hún áfram. "Í Bretlandi", svaraði ég.

Nú settist konan aftur í sitt sæti en var þó greinilega ennþá hugsi og áhugasöm um bókina mína. Eftir skamma stund sá ég að hún tók upp minnisblokk og byrjaði að pára. "Já auðvitað", hugsaði ég, "hún er að skrifa niður titilinn á bókinni svo að hún geti pantað hana á Amazon". Þetta fannst mér bæði skynsamlegt hjá henni að gera og hjá mér að fatta að hún væri að gera.

En þegar ég gerði mig líklegan til að fara út úr vagninum reif konan blaðið úr blokkinni sinni og vék sér aftur að mér. "Gætirðu nokkuð misst bókina í nokkra daga þegar þú ert búinn að lesa hana? Hérna er símanúmerið mitt." Hún rétti mér miðann og ég tók við honum.
Ég legg stund á fjarnám í íslensku og málvísindum við Háskóla Íslands. Af því hef ég góða reynslu, ég get til dæmis hlustað á upptökur af fyrirlestrum í góðu tómi heima hjá mér. Gallinn er bara að mér finnst dálítið þreytandi að sitja og hlusta og gera ekkert annað, enda þarf yfirleitt ekki nema svona 70% af heilastarfsseminni til að fylgja eftir svona fyrirlestri. Lengst af hef ég notað hin 30 prósentin til að spila tölvuleiki. Núna um helgina hef ég hins vegar fært út kvíarnar og reynt að koma hlutum í verk jafnframt því sem ég hlusta. Ég hef fundið út að ég get gert nokkurn veginn hvað sem er ef ég get fært það fyrir framan tölvuna og það felur ekki í sér vinnslu á tungumáli. Ég get sem sagt ekki hlustað á fyrirlestur og lesið bók eða talað í símann eða skrifað tölvupóst. Ég get hins vegar vel hlustað og straujað og hef gert töluvert af því undanfarið. Í dag straujaði ég yfir mig og reyndi þá að finna upp á einhverju öðru. Mér datt í hug að fægja silfrið okkar. Það gekk mjög greiðlega og reyndar svo vel að það tók ekki nema hálfan fyrirlestur. Nú reyni ég að láta mér detta í hug fleiri gagnleg verk að vinna í þessu umhverfi. Næst reyni ég kannski að bursta skó.
Ég heimsótti föðurömmu mína áðan og komst að því að hún tók þátt í mállýskurannsókn Björns Guðfinnssonar á fimmta áratugnum. Það finnst mér dálítið merkilegt. Í sama samtali sagði amma mér að langafi minn, Benedikt frá Hofteigi, hafi ekki raunverulega verið flámæltur en brugðið fyrir sig flámæli í útvarpsviðtölum til að leggja áherslu á að hann væri Austfirðingur.
Þann 7. júlí 1940 skrifaði Morgunblaðið þetta um borgina Vichy í Frakklandi: "Borg þessi hefir lítið komið við sögu í Frakklandi, en er þó þekt fyrir, hversu málmkent drykkjarvatnið þar er."

Þetta málmkennda drykkjarvatn er væntanlega álappaleg þýðing eða misskilningur á orðunum "mineral water" eða "eau minérale".

Ólympíuleikarnir í Helsingfors 1940

Finnar segja að Olympiuleikarnir verði haldnir

Olympíunefndin í Finnlandi hefir lýst yfir því, að þrátt fyrir hinar ískyggilegu horfur í Evrópu muni verða haldið fast við þá ákvörðun, að halda næstu Olympíuleika í Helsingfors.

Segir í yfirlýsingunni, að alt sje þegar undir leikana búið, en Finnland sje þess og albúið að gerast griðastaður friðarins.

Þar að auki sje þess að vænta, að ófriður þessi sje brátt á enda.

        — Morgunblaðið 4. september 1939